Jæja, þá erum við komin heim og ég get skrifað með alvöru íslenskum stöfum. Dagurinn i dag var viðburðaríkur eins og hinir. Við vöknuðum kl. 6.30 við svaka hvelli og húsið nötraði, þegar ég komst til meðvitundar áttaði ég mig á því að þetta voru fallbyssuskot. Ég nefndi þetta við Arne daginn eftir og hann hló en baðst afsökunar á því að hafa ekki varað okkur við, sem hefði reyndar ekki skipt neinu máli. Svona er sem sagt byrjunin á hverjum einasta 17. maí við Vatneli. En þegar ég sagði stelpunum að þær mættu sofa lengur voru þær ekki lengi að leggjast á koddan og halda áfram að hrjóta. Rétt rúmlega 8 fórum við svo á fætur. Það var ótrúlega erfitt að vakna og við stelpurnar allavega vorum mjög stirðar eftir gönguna í gær. En líkaminn komst þó fljótt í samt lag og við drifum okkur að loka töskum, borða morgunmat og koma okkur af stað. Við mættum niður í bæ kl. 9.15 en við áttum að mæta við lestarstöðina alls ekki seinna en 9.25. Við sáum fljótt að við yrðum að leggja bílnum frekar snemma og labba afganginn. Við enduðum reyndar með að hlaupa. En það var gott að hafa íslenska fánann því þá var auðvelt að finna hópinn ef einhver týndist. Það var nefnilega alveg hellingur af fólki í bænum og ALLIR með norskan fána. Við vorum alveg rosalega hissa á því hvað allir voru fínir. Fólk var annað hvort í þjóðbúning eða jakkafötum, jafnvel krakkar. Við fundum loks hópinn í mergð af öðrum skólahópum og allir svo fínir. Þetta var allt eitthvað svo öðruvísi, þarna var ekki skrúðganga sem allir gengu í heldur voru þetta skólarnir og fullorðna fólkið stóð við götuna og horfði á. Allir sungu úr sér lungun og hrópuðu fyrir sinn skóla, gangan tók um 45 mínútur. Síðan var farið aftur í skólann en þar var hátíðardagskrá sem við áttum að taka þátt í. Okkar hlutverk var sem sagt að syngja þjóðsönginn og við gerðum það með glæsibrag enda fullt af góðu söngfólki í hópnum. Við vorum ánægð þótt Marel hafi haldið því fram að píanóleikarinn sem er pólsk hafi ekki spilað lagið alveg rétt, en hvað um það.
Þegar við vorum búin að syngja og hlusta smá þurftum við að fara í flugið. Okkur var sagt að læðast úr salnum og fara fram að borða áður en við færum. Foreldrafélagið var með matar og kökusölu en við fengum ekkert að borga, bara borða eins og við gátum í okkur látið. Arne tók ekki annað í mál en að fá að borga, sem sagt Vatneli bauð í þetta eins og svo margt annað.
Svo var farið í að kveðja sem var mjög erfitt og söknuður strax hafinn þegar komið var í bílana. Arne og Fríða keyrðu út á völl en Sigfrid, konan hans Arne var með til að taka bílinn til baka. Ég ætlaði að fara að gera upp við hann allan þann kostnað sem hann hafði lagt út í mat, ferju, skauta og fleira en það var ekki að tala um. Ég náði þó að koma smá pening í vasann hans og sagði honum að kaupa þá eitthvað skemmtilegt fyrir krakkana í skólanum. Þetta er alveg ótrúlegt fólk sem við vorum að heimsækja, við vonum að þau komi einhvern tíma til okkar þó það verði erfitt að feta í þeirra spor í gestrisni.
Takk fyrir samveruna krakkar, þið voruð alveg frábærir förunautar og Heiðar og Fríða: takk fyrir alla hjálpina þið stóðuð ykkur alveg rosalega vel.
Kær kveðja, Steinunn.
Ha! Ekki fyrr farin út að þið eruð komin heim á ný!
ReplyDelete